Júlíus Valsson gigtarlæknir:

ÞVAGSÝRUGIGT.

Þvagsýrugigt (enska: gout, skandinaviska: gigt) er algengur gigtarsjúkdómur, sem hefur verið þekktur í meira en tvö þúsund ár. Til eru frásagnir af sjúkdómnum frá tímum Babylon. Hippokrates þekkti til þvagsýrugigtar og ummerki sjúkdómsins hafa fundist í ævafornum beinagrindum. Merkar uppgötvanir voru gerðar varðandi sjúkdóminn á 18. og 19. öld. Á vorum tímum hafa hins vegar orðið miklar framfarir bæði hvað varðar greiningu og meðferð sjúkdómsins. Þvagsýrugigt má í raun flokka með velmegunarsjúkdómum.

Hvað er þvagsýrugigt?

Þvagsýrugigt getur átt sér margar orsakir. Þvagsýra er lífrænt efnasamband,sem myndast í líkamanum við niðurbrot púrins, sem er í flokki niturbasa t.d. adenins og guanins sem eru meginuppistaða erfðaefnisins DNA og RNA og eru í öllum frumum. Púrín er því í miklu magni í kjötmeti, þar sem það samanstendur af mörgum frumum. Segja má, að þvagsýrugigt sé efnaskiptasjúkdómur sem einkennist af því að of mikið magn þvagsýru safnast fyrir í líkamanum. Tilhneigingin til að framleiða of mikið eða útskilja of lítið af þvagsýru er í mörgum tilvikum arfgeng. Að auki geta umhverfisþættir eins og ofát og ofdrykkja aukið magn þvagsýru í líkamanum, og sama gegnir um viss lyf, t.d . þvagræsilyf sem notuð eru gegn hjartabilun og háum blóðþrýstingi.

Þvagsýra getur myndað kristalla í liðamótum og næsta umhverfi þeirra, og einnig stundum í öðrum líkamshlutum, t. d. í brjóskinu á eyrunum og í húðinni sérstaklega á fingrum og tám. Eitt af markmiðum meðferðar við þvagsýrugigt er að hindra upphleðslu kristalla og að losa líkamann við þá, ef þeir hafa náð að myndast. Með nútíma lyfjameðferð er þetta vel gerlegt, jafnvel í svæsnum tilfellum. Auðvelt er að mæla þvagsýru í líkamanum með blóðprufu, og á sama hátt má meta árangur meðferðar við þvagsýrugigt. Með blóðprufum er einnig hægt að sýna fram á, að vissir heilbrigðir einstaklingar, einkum nánir ættingjar þvagsýrugigtarsjúklinga, ganga árum saman jafnvel ævilangt með ofurmagn þvagsýru í líkamanum án þess að vita af því og án þess að fá þvagsýrugigtarkast.

Þvagsýrugigt var fyrsti gigtarsjúkdómurinn, sem hægt er að lækna (bæla niður) í eitt skipti fyrir öll með nútíma læknisráðum og fyrirbyggja þannig liðaskemmdir (liðagigt), sem oft fylgdi í kjölfar endurtekinna þvagsýrugigtarkasta.

Almenn atriði:

l ) Þvagsýrugigt er arfgeng, en umhverfisþættir skipta einnig máli.

2) Þvagsýrugigt stafar af ofurmagni þvagsýru í líkamanum.

3) Endurtekin þvagsýrugigtarköst geta skemmt liði og valdið langvar- andi liðagigt .

4) Með nútíma meðferð má fyrirbyggja langvarandi þvagsýrugigt.

 

 

Þvagsýrugigtarkast.

Óþarft er að lýsa þvagsýrugigtarkasti fyrir þeim, sem hefur kynnst því af eigin raun, því fáir kvillar sem hrjá mannkynið eru sársaukafyllri. Stóra táin sem verður rauð, þrútin og helaum um miðbik nætur, er vel þekkt fyrirbæri. Oft gleymist hins vegar, að þvagsýrugigt getur einnig lagst á aðra liði líkamans, t. d. hné, olnboga og úlnliði. Áverki á liðamót getur hrundið af stað þvagsýrugigtarkasti. Þreyta, áhyggjur og lasleiki geta einnig komið af stað kasti. Stundum getur lítilfjörleg aðgerð, jafnvel tanndráttur, komið af stað kasti nokkrum dögum síðar. Tímabundið ofát og/eða ofdrykkja geta einnig valdið kasti hjá fólki með háa þvagsýru í blóðinu.

Þvagsýrugigtarkast - samantekt:

l ) láttu þér alltaf detta þvagsýrugigt í hug, ef liður verður óeðlilega bólginn eftir lítils háttar áverka.
2) jafnvel smávægileg röskun á jafnvægi líkamans getur hrundið af stað kasti.
3) vertu alltaf á varðbergi gegn einkennum byrjandi kasts, þar eð því fyrr sem meðferð er hafin, þeim mun betra. Gigtin getur líka herjað á heldri konur!

 

 

Fyrstu þvagsýrugigtarköstin valda yfirleitt ekki varanlegum liðskemmdum, og þú mátt því reikna með fullum bata eftir að kastinu lýkur. Margendurtekin köst í sama liðnum valda hins vegar verulegri þvagsýruútfellingu og skemmdum. Í vægum tilfellum eru köstin þó oft það strjál, að varanlegar skemmdir koma seint eða ekki fram.

Meðferð þvagsýrugigtar:

1) Mataræði: Í mörgum fæðutegundum er að finna lífrænt efnasamband, sem kallast púrín. Líkaminn breytir þessu efni í þvagsýru, og er fólki með þvagsýrugigt því ráðlegt að forðast púrin-ríka fæðu. Af algengum púrínríkum réttum má nefna allan innmat svo sem lifur, nýru, hjörtu, slátur svo og önnur matvæli svo sem kjöt og kjötsósur, fuglakjöt, fisk og fiskhrogn, sardínur og síld. Skynsamlegt er að forðast þessa rétti eftir því sem unnt er, og gæta hófs í neyslu eggjahvíturíkrar fæðu, t.d. kjöts. Hafa ber þó í huga, að viss lyf sem draga úr myndun þvagsýru í líkamanum minnkar verulega þörfina fyrir strangt mataræði. Strangur megrunarkúr getur jafnvel valdið þvagsýrugigtarkasti. Á hinn bóginn er feitu fólki þó ráðlegt að grenna sig, því sterk tengsl eru milli offitu og ofurmagns þvagsýru í blóði. Ráðlegt er að drekka mikinn vökva, því það flýtir fyrir útskilnaði þvagsýrunnar úr líkamanum. Einnig er óhætt að borða alla ávexti, ber, flest allt grænmeti, kartöflur, hveitiafurðir, hveitibrauð, mjólk og súrmjólk, rjóma, smjör, smjörlíki, olíur, ost, mysing, egg, hrísgrjón, kavíar, hnetur og krydd. Grænmeti og ávextir innihalda tiltölulega mikinn vökva og gera þvagið alkaliskt (basískt) en það flýtir fyrir útskilnaði þvagsýrunnar um nýrun. Óhætt er að neyta eftirfarandi fæðutegunda en í hófi!: Baunir, ertur, spínat, aspargus, sveppir, rúgmjöl, korn og hafrar, bjór, kaffi, te og súkkulaði. Þvagsýrugigtarkast: Bólginn þumalfingur með gigtarhnút

2) Áfengi: Áfengisdrykkja veldur ekki þvagsýrugigt ein og sér, en ef þú átt vanda til þvagsýrugigtar, getur drykkjutúr hrundið af stað kasti. Þetta er þó einstaklingsbundið, og margir læra innan tíðar af reynslu að forðast vissar áfengistegundir. Almennt má segja, að portvín og rauðvín séu verst, en kampavín, bjór og sherrý fara einnig illa í suma. Brennd vín eins og vodka, gin og viskí valda mun síður þvagsýrugigtarköstum en áðurnefndar áfengistegundir.

Staðbundin meðferð við þvagsýrugigtarkasti hrekkur oftast skammt.

Að jafnaði þarf því að grípa til lyfja, og hér eru tveir flokkar lyfja mikilvægastir:

1) Lyfjameðferð við bráðu kasti: Lyf þau, sem eru notuð gegn bráðu kast eru aðallega bólgueyðandi gigtarlyf. Þau gagna þó lítt ein sér til að fyrirhyggja þvagsýrugigtarköst eða hindra útfellingu á þvagsýrukristöllum í liðum. Mikilvægt að byrja töku þeirra sem fyrst, þegar kast er í uppsiglingu, eða helst áður en kastið byrjar. Bólgueyðandi lyf má gefa bæði í töflum og í sprautuformi.

2) Langtímameðferð til að fyrirbyggja köst: Lyf sem draga úr myndun þvagsýru eða auka útskilnað hennar um nýrun.Fyrir þá, sem eru sífellt að fá þvagsýrugigtarköst og blóðprufur gefa til kynna, að of mikil þvagsýra sé í líkamanum, getur læknirinn ákveðið að gefa lyf, sem hindra framleiðslu þvagsýru í eða auka útskilnað hennar í gegnum nýrun. Þessi lyf verður að taka að staðaldri, bæði í köstunum og á milli þeirra. Tilgangur þessarar meðferðar er að koma í veg fyrir ofurmagn þvagsýru í líkamanum og hindra þannig að þvagsýrukristallar falli út í liðum og annars staðar þar sem þeir geta valdið tjóni. Það lyf sem nú er mest notað í þessum tilgangi kallast allópúrínól (Apurin). Verkun þess byggist á að hindra framleiðslu þvagsýru í líkamanum. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir, að jafnskjótt og töku lyfsins er hætt byrjar þvagsýran að hlaðast upp á ný. Því má reikna með, að þú þurfir að taka lyfið ævilangt.

Allópúrínól hefur ýmsa kosti. Ef þú notar lyfið minnkar t.d. mjög þörfin fyrir strangt mataræði, og lyf eins og aspirín sem í lágum skömmtum geta stuðlað að þvagsýrugigtarkasti, má þá taka að vild. Verkun allópúrinóls er síðkomin, og nokkrar vikur og jafnvel mánuðir geta liðið áður en þú finnur á þér breytingu til hins betra. Sumir fá jafnvel aukin köst meðan lyfið er að minnka þvagsýruna í líkamanum. Þess vegna eru bólgueyðandi gigtarlyf oft gefin með allópúrinóli fyrstu tvo til þrjá mánuðina til að fyrirbyggja köst. Smám saman hætta þó köstin, og ef sýnilegar þvagsýruútfellingar hafa myndast, t. d. í nágrenni fingurliða, þá geta þær minnkað smám saman og jafnvel horfið.

Ef allópúrinól bregst, t. d. vegna ofnæmis, má grípa til lyfja, sem auka útskilnað þvagsýru í gegnum nýrun og hindra þannig upphleðslu hennar í líkamanum og um leið komið í veg fyrir þvagsýrugigtarköst. Hér gildir það sama og um allópúrinól: þessi lyf verður að taka mjög reglulega og ævilangt. Meðal lyfja í þessum flokki má nefna próbenesíð.

Lokaorð:

Þvagsýrugigt getur verið mjög sársaukafullur sjúkdómur sem valdið getur skemmdum í liðamótum og jafnvel víðar. Bráðu köstin má þó lækna á skömmum tíma, og hægt er að koma í veg fyrir langvarandi liðagigt af völdum sjúkdómsins ef rétt er að málum staðið frá upphafi. Sagt er að þvagsýrugigtarsjúklingar séu greindari en aðrir!

Nokkrir nafnkunnir þvarsýrugigtarsjúklingar: Sir Francis Bacon, William Pitt, Charles Darwin og Bellmann (alls ekki svo slæmur félagsskapur!).

 

© 2000 Júlíus Valsson læknir, www.rheumaticus.com